Sport

Hatrömm barátta

Þjálfarar liða í Kyrrahafsriðlinum prísa sig eflaust sæla að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því hvernig þeir eiga að stöðva Shaquille O´Neal. Núna er hann horfinn á braut sem gerir riðilinn töluvert jafnari. Athyglin beinist óneitanlega að Lakers sem mætir gjörbreytt til leiks frá síðasta tímabili. Í vetur verður liðið alfarið í höndunum á Kobe Bryant sem fær að leika lausum hala. Stóra spurningin er hvort hann hafi þá leiðtogahæfileika sem þarf til að stýra liðinu til sigurs í riðlinum. Erkifjendur Lakers, Sacramento Kings, eru orðnir hundleiðir á árangri síðustu ára og það verður að duga eða drepast fyrir það. Liðin tvö munu eiga í hatrammri baráttu um sigur í riðlinum en nái Lakers að smella saman gætu stórir hlutir gerst í Los Angeles. Steve Nash er kominn til Phoenix Suns og mun leikur liðsins breytast umtalsvert með tilkomu hans. Suns mun þurfa tíma til aðlögunar og verður fyrir neðan ofangreind lið. Golden State Warriors og Los Angeles Clippers eru ekki líkleg til teljandi afreka og er ekki annað hægt en að dáðst að skemmdarverkum Kobe Bryant, ekki bara í eigin liði heldur líka í herbúðum Clippers. Hann fékk forráðamenn liðsins til að búa til pláss fyrir sig og þeir seldu bestu menn sína en svo varð ekki neitt úr neinu. Clippers verður því sami brandarinn áfram, liðið sem nær sér í mikið og gott efni og selur menn svo jafnóðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×