Sport

Haraldur til Noregs

Ástandið í herbúðum bikarmeistara Keflavíkur er ekki burðugt þessa dagana. Þeir eru þjálfaralausir og enn er ekki farið að ræða við neina þjálfara. Svo eru þeir byrjaðir að missa leikmenn frá liðinu og líklegt er að þeir missi einn sinn besta mann í vikunni. Varnarmaðurinn Haraldur Freyr Guðmundsson kom með samning í farteskinu heim frá Noregi í síðustu viku eftir dvöl hjá norska félaginu Aalesund. Haraldur mun gera norska félaginu gagntilboð í dag. "Mér leist ágætlega á samninginn sem þeir sendu mig heim með en ætla samt að gera gagntilboð. Þannig ganga þessir hlutir víst fyrir sig," sagði Haraldur í samtali við Fréttablaðið í gær. Þetta norska félag sem Haraldur var hjá lék í 1. deild á þessari leiktíð en vann sér sæti í úrvalsdeild og mun því leika meðal þeirra bestu á næstu leiktíð. "Mér líst vel á þetta félag. Þetta er frekar lítill klúbbur en það er brennandi áhugi á fótbolta í bænum. Þeir munu vígja nýjan 10 þúsund manna völl fyrir næsta tímabil og veitir ekki af því eftirsókn í miða er gríðarleg. Ég sá þá spila og leist ágætlega á. Þeir ætla að bæta 5-6 mönnum við sig fyrir næsta tímabil og ég býst við að verða einn þeirra. Vonandi klárum við málið í vikunni," sagði Haraldur en hann getur einnig spilað áfram með Keflavík kjósi hann svo því þeir ætla að bjóða honum nýjan samning í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×