Sport

Lúkas hafnar Grindavík

Knattspyrnuþjálfarinn Lúkas Kostic hafnaði freistandi samningstilboði Grindvíkinga um helgina. Ástæðan er sú að tímasetningin hentar Kostic engan veginn. Hann er að þjálfa 4. flokk KR og U-17 ára lið Íslands og telur sig ekki geta gengið frá þeim störfum eins og staðan er í dag. "Ég er með samninga við KR og KSÍ og ég geng ekki burt frá undirrituðum samningum. Það er bara ekki minn karakter og því gaf ég þetta frá mér," sagði Kostic við Fréttablaðið í gær. "Engu að síður var þetta mjög spennandi dæmi sem þeir í Grindavík voru að bjóða mér. Þar vinna metnaðarfullir og kraftmiklir menn með stórar og góðar hugmyndir en þær henta mér ekki eins og er." Lúkas segir að það sé mjög spennandi að vinna með strákunum í U-17 ára liðinu og hann telur sig geta náð meira út úr því liði. Það sé ein ástæðan fyrir því að hann geti ekki stokkið frá borði í dag og hellt sér út í annað. Einnig spili fjölskylduaðstæður inn í en hann hefði þurft að flytja til Grindavíkur tæki hann starfið að sér. Grindvíkingar standa því enn uppi þjálfaralausir og ómögulegt að segja hvenær botn fæst í þjálfaramál þeirra. "Við erum bara aftur komnir á byrjunarreit og verðum að setjast niður á ný og fara yfir stöðuna," sagði Jónas Þórhallsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, en hann hefur ekki gefið upp alla von um að fá Guðjón Þórðarson til starfa. "Nei, við erum enn að hugsa um hann og spurning hvort við verðum aðeins þolinmóðir áfram og bíðum eftir honum. Svo getur líka vel verið að við leitum út fyrir landsteinana eftir nýjum þjálfara," sagði Jónas. Knattspyrnuþjálfarinn Lúkas Kostic hafnaði freistandi samningstilboði Grindvíkinga um helgina. Ástæðan er sú að tímasetningin hentar Kostic engan veginn. Hann er að þjálfa 4. flokk KR og U-17 ára lið Íslands og telur sig ekki geta gengið frá þeim störfum eins og staðan er í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×