Sport

Rosenborg meistari 13. árið í röð

Rosenborg varð á laugardag Noregsmeistari í knattspyrnu 13. árið í röð eftir mikla dramatík i lokaumferð norsku deidarinnar. Þegar upp var staðið var Rosenborg hnífjafnt Vålerenga að stigum, bæði lið með 48 stig á toppnum með jafna markatölu en Rosenborg er meistari á fleiri mörkum skoruðum eða minnsta mögulega mun. Frode Johnsen var hetja Rosenborgar en hann skoraði þrennu í 4-1 sigri á Lyn þar sem Johnsen skoraði síðasta markið 2 mínutum fyrir leikslok. Hefði það mark ekki komið væru Árni Gautur Arason og félagar í Vålerenga meistarar en þeir sigruðu Stabæk 3-0 þar sem Veigar Páll Gunnarsson var á varamannabekk Stabæk allan tímann en liðið féll úr efstu deild með tapinu. Lilleström gerði 2-2 jafntefli við Brann þar sem Gylfi Einarsson skoraði annað marka Lilleström með skalla eftir hornspyrnu. Ólafur Örn Bjarnason lék að venju allan leikinn með Brann. Þá skoraði Hannes Sigurðsson eitt marka Viking sem vann Fredikstad 5-2 en hann kom inn á sem varamaður í leiknum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×