Erlent

Átta ára fangelsi

Bandarískur hermaður var í dag dæmdur í átta ára fangelsi fyrir að misþyrma írökskum föngum í Abu Graib fangelsinu í Bagdad, bæði kynferðislega og andlega. Þetta er þriðji dómurinn sem fellur vegna illrar meðferðar á föngunum í Abu Graib og sá langþyngsti hingað til. Ivan Frederick er sá hæst setti af þeim átta bandarísku hermönnum sem sakaðir eru um að hafa misþyrmt föngunum í Abu Ghraib. Frederick er sá þriðji sem er dæmdur og hans dómur upp á átta ár í fangelsi er mun þyngri en hinna tveggja sem fengu, annars vegar átta mánaða og hins vegar eins árs dóm. Fredrick játaði að hafa þvingað þrjá írakska fanga til að fróa sér fyrir framan fangaverði sem tóku af þeim myndir. Þá viðurkenndi hann einnig að hafa barið einn fanganna svo harkalega í brjóstið að það þurfti að lífga hann við. Hann sagðist iðrast gjörða sinna sem hann hafi vitað að væru rangar. Mörgum spurningum er enn ósvarað um það hver ber raunverulegu ábyrgðina á illri meðferð fanganna í Abu Ghraib og hversu mikið æðstu yfirmenn Bandaríkjahers vissu um yfirheyrsluaðferðir fangavarðanna þar. Enn hefur enginn hátt settur yfirmaður eða embættismaður sagt af sér eða verið dreginn til ábyrgðar fyrir það sem fram fór í fangelsinu. Breska ríkisstjórnin ákvað í dag að flytja áttahundruð og fimmtíu sérsveitarmenn frá bækistöðvum sínum í suðurhluta Íraks til Bagdads. Þar munu bresku hermennirnir taka að sér eftirlitsstörf svo Bandaríkjaher geti enn frekar einbeitt sér að því að ná stjórn á því uppreisnarástandi sem ríkir í nágrenni höfuðborgarinnar. Margir þingmenn Verkamannaflokksins eru ævareiðir vegna þessa og segja að með þessu sé Blair að aðstoða vin sinn Bush til ná endurkjöri í forsetaembættið í Bandaríkjunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×