Innlent

Skarð hannað en ekki ákveðið

Í Efra-Sogi milli Þingvallavatns og Úlfljótsvatns, þar sem áður eru taldar hafa verið aðalhrygningarstöðvar Þingvallaurriðans, var Steingrímsstöðvarvirkjun tekin í notkun árið 1959. Virkjanir í Soginu voru færðar yfir til Landsvirkjunar þegar fyrirtækið var stofnað, en Landsvirkjun hefur síðustu ár kostað uppbyggingu á urriðastofninum í Þingvallavatni. Hugrún Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri á verkfræði- og framkvæmdasviði Landsvirkjunar, segir nú hafa verið komið að stöðumati og því fiskur ekki tekinn í klak. Til eflingar urriðastofninum eru uppi hugmyndir um gerð skarðs í stíflu Steingrímsstöðvar. "Framkvæmdin hefur samt ekki endanlega verið samþykkt," segir Hugrún og bendir á að slíka ákvörðun yrði að taka í samvinnu við hagsmunaaðila. "Svo á eftir að koma í ljós hvernig slík aðgerð nýtist urriðanum," segir hún og bendir á að straumurinn fyrir ofan skarð yrði frekar takmarkaður. Ekki hefur verið ákveðið hvort skarðið yrði fiskgegnt ef ráðist yrði í framkvæmdina. Þá bendir Hugrún á að gerðar hafi verið tilraunir með hrygningarmöl í útfalli Steingrímsstöðvar, en þangað hafi urriði enn sem komið er ekki komið til hrygningar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×