Innlent

Átján fíkniefnamál á tónleikum

Átján ungmenn, flest um og undir tvítugu, voru tekin með fíkniefni fyrir utan Laugardalshöllina áður en tónleikar hljómsveitarinnar Prodigy hófust á föstudagskvöldið. Haukur Ásmundsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar í Reykjavík, segir að fjölda mála megi rekja til þess að lögreglan hafi nú í fyrsta skiptið verið með tvo fíkniefnahunda sér til aðstoðar. Hundarnir, sem annars vegar eru frá lögreglunni í Reykjavík og hins vegar tollinum, gengu meðal fólks og fundu töluvert magn fíkniefna. Haukur segir að mest hafi fundist af hassi en einnig töluvert magn amfetamíns og e-töflur. Hann segir að flestir hafi verið með efni sem greinilega hafi verið hugsuð til einkanota en þó hafi einn verið tekinn með töluvert magn sem hann hafi líklega ætlað að selja á tónleikunum. Engin áfengissala var leyfð á tónleikunum en Haukur segir að töluverð ölvun hafi samt verið á svæðinu og margt ungt fólk verið undir áhrifum áfengis. Lögreglan líti það mjög alvarlegum augum. "Við tókum til dæmis eina þréttán ára gamla stúlku með okkur upp á stöð. Hún var ofurölvi og vissi hvorki í þennan heim né annan. Við höfðum samband við foreldra hennar og þeir sóttu hana." Haukur segir alveg ljóst að lögreglan muni í auknum mæli nota fíkniefnahunda í tengslum með eftirlit með tónleikum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×