Erlent

Fjöldasjálfsmorð í Japan

Lögreglan fann í gær lík níu ungra Japana sem talið er að hafi framið sjálfsmorð saman. Unga fólkið hafði komið litlum kolaofni fyrir bílnum og lést af koltvísýringsmengun. Lík fjögurra ungra manna og tveggja kvenna fundust í bíl í vesturhluta Tokíó og lík tveggja ungra kvenna fundust á sama tíma í bíl í suðurhluta borgarinnar. Ekki er enn vitað hvort málin tvö tengist en hins vegar er talið víst að fólkið hafi kynnst í gegnum netsíðu um sjálfsmorð. Nokkur aukning hefur verið í sjálfsmorðum sem rekja mátt hefur til slíkra síðna á Netinu. Samkvæmt lögreglunni leitar fólk á þessar síður til að þess að finna einhvern sem er tilbúin að deyja með þeim. Á síðunum eru einnig leiðbeiningar um það hvernig eigi að fremja sjálfsmorð og hvar það sé hentugast að gera það. Málið hefur vakið gríðarmikla athygli í Japan. Þarlend yfirvöld eru nú að velta því fyrir sér hvort ekki sé rétt að loka þessum netsíðum en þrýst á það víða úr samfélaginu. Forsvarsmenn síðnanna telja þær hins vegar eiga fullan rétt á sér. Segja þeir að á síðunum sé ekki verið að hvetja til sjálfsmorða heldur sé síðunum haldið úti af samúð vðið fólk sem sé búið að gefast upp á lífinu. Í fyrra frömdu ríflega 34 þúsund Japanar sjálfsvíg sem er um sjö prósent aukning frá árinu 2002. Sérfræðingar segja að efnahagserfiðleikar og aukin einungrunarkennd ungra Japana sé helsta skýringin á þessari aukningu milli ára. Í Japan er til hugtak sem nær yfir einangrað ungt fólk. Er það kallað "hikikomori" sem útleggst sem sá sem aldrei yfirgefur herbergið sitt og leitar sér einungis að félagsskap og skemmtun á Netinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×