Erlent

Þrjú myrt á sólarhring

Níu mánaða barn, átján ára stúlka og 41 árs karlmaður voru myrt í Noregi um helgina. Þrír karlmenn hafa verið handteknir vegna rannsóknar málanna þriggja og tengjast þeir allir, með einum eða öðrum hætti, þeim sem þeir eru grunaðir um að hafa myrt. Tæplega þrítugur karlmaður hefur verið handtekinn grunaður um að hafa myrt níu mánaða gamalt barn í Kristiansand. Barnið lést af völdum höfuðáverka sem því voru veittir. Maðurinn, sem á langan afbrotaferil að baki og var nýbúinn að afplána dóm, neitar því að vera valdur að dauða barnsins. Hann er kærasti móður barnsins og hringdi í neyðarlínuna til að tilkynna að barnið virtist líflaust. Hann fékk áfallahjálp eftir að hafa brotnað niður í kjölfar andláts barnsins. Maður á þrítugsaldri hefur verið handtekinn, grunaður um að hafa myrt rúmlega fertugan stjúpföður sinn í Bodö. Gestur í gleðskap á heimili hins látna fann líkið aðfaranótt laugardags. Stjúpsonurinn var horfinn þegar lögreglan kom á staðinn en gaf sig fram við hana í fyrrakvöld. Í Osló var átján ára stúlka skotin til bana aðfaranótt sunnudags. Böndin berast helst að 21 árs gömlum unnusta hennar sem hefur verið lagður inn á geðdeild. Yfirheyrslur yfir honum hafa hins vegar gengið illa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×