Erlent

Blair enn í vanda

Tony Blair tapaði fyrstu lotu í baráttunni um hug og hjörtu breska Verkamannaflokksins. Blair vildi ræða innanríkismál, en flokksmenn þvinguðu fram neyðarumræður um stríðið í Írak. Í dag er svo komið að uppgjöri þeirra Blairs og Gordons Browns, fjármálaráðherra. Tony Blair vill ekki fjalla frekar um Írak og deilurnar vegna stríðsins þar á flokksþingi breska Verkamannaflokksins sem fram fer í Brighton sem stendur. Þess í stað ætlaði hann ræða og leggja áherslu á innanríkismál á borð við stefnu í málefnum flóttamanna, baráttu gegn eiturlyfjum og glæpum og endurbætur á menntakerfinu. En flokksmenn voru ekki á því, og þvinguðu fram neyðarumræður um stríðið í Írak. Nú segja fréttaskýrendur nauðsynlegt að reyna að finna einhvers konar málamiðlunartillögu. Að öðrum kosti gæti á fimmtudag orðið atkvæðagreiðsla um róttæka tillögu á borð við að breska herliðið í Írak verði kallað heim. Fyrir utan Írak skyggja deilur eða valdabarátta þeirra Blairs og fjármálaráðherrans Gordons Browns á flokksþingið. Fyrr á árinu létu nánir fylgismenn Browns í sér heyra og létu í það skína, að Blair myndi hverfa af valdastóli von bráðar og Brown taka við. Blair er hins vegar aldeilis ekki á því og tók fram í viðtölum og á þinginu í gær, að hann væri ekki á förum. Brown ávarpar nú þingið og er náið fylgst með því, hvort að meira og minna dulbúin skot á Blair og nánustu samverkamenn hans fljóta með. Hann leggur áherslu á mikilvægi fjármálastefnu stjórnvalda og þar með eigin hlutverks. Hann tíundaði mikilvægi stöðugleika og sterks efnahags í kosningabaráttu sem hefst að líkindum von bráðar, þar sem gert er ráð fyrir þingkosningum næsta vor. Fréttaskýrendur segja það skilaboð um að hann hyggist leika lykilhlutverk í þeirri baráttu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×