Erlent

Se og hör fær dóm í Danmörku

Ritstjórar og blaðamenn danska tímaritsins Se og hör voru dæmdir til greiðslu sektar að andvirði tæplega átta hundruð þúsunda íslenskra króna fyrir dönskum dómstólum í gær. Blaðið fjallaði í nóvember 2002 um ástamál Önju Andersens sem er þekktasta handboltakona Danmerkur. Hún var þá þjálfari kvennaliðs Slagelse og stóð í ástarsambandi við einn leikmanna liðsins. Anja stefndi blaðinu og vann sigur í gær. Í dóminum segir að umfjöllun blaðsins hafi ekki haft nokkurn þann vinkil sem tengja mætti við íþróttaiðkun kvennanna. Eingöngu hafi verið fjallað um einkalíf þeirra og að blaðinu mátti vera ljóst að það var gegn vilja beggja kvennanna. Ritstjórinn var því dæmdur til greiðslu 40 þúsund danskra króna og tveir blaðamenn til greiðslu 15 þúsund króna, eða samtals andvirði átta hundruð þúsund íslenskra króna. Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður telur þetta vera skynsamlegan dóm. Hann segir að ef réttur og dómar einhvers lands hafi fordæmisgildi hér á landi þá sé það í Damörku því fyrirmynd íslensku stjórnarskrárinnar komi þaðan. Verði þetta endanlegur dómur í málinu í Danmörku megi því með mjög svipuðum hætti sækja mál fyrir íslenskum rétti. Systurblað hins danska Se og hör hér á landi, Séð og heyrt, hefur löngum fjallað um einkalíf fólks með svipuðum hætti og danska blaðið. Sveinn Andri telur í ljósi þessa dóms að Séð og heyrt megi búast við málsóknum af svipuðum toga á næstunni. Hægt er að hlusta á viðtal við Svein Andra úr hádegisfréttum Bylgjunnar með því að smella á hlekkinn hér að neðan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×