Erlent

Æsispennandi kosningar framundan

Úrslit forsetakosninganna í Bandaríkjunum ráðast af því hvernig kjósendur í Flórída og Arkansas greiða atkvæði, að því er segir í kosningaspá Zogby-fyrirtækisins sem kannar fylgi forsetaframbjóðendanna eftir ríkjum Bandaríkjanna. Samkvæmt nýjustu spá fyrirtækisins myndi demókratinn John Kerry fá 264 kjörmenn ef kosið yrði í dag og George W. Bush Bandaríkjaforseti 241. Of litlu munar á fylgi þeirra í Flórída og Arkansas til að hægt sé að dæma öðrum frambjóðandanum sigurinn. Því myndu úrslitin ráðast í þessum ríkjum. Bæri Kerry sigur úr býtum í Arkansas myndi hann tryggja sér samtals þá 270 kjörmenn sem þarf til að tryggja sér forsetaembættið. Skipti þá engu hvort Kerry eða Bush fagnaði sigri í Flórída. Mjótt er á munum í fleiri ríkjum og að sögn Zogby gæti farið svo að Bush og Kerry fengi hvor um sig 269 kjörmenn og þá þyrfti fulltrúadeild Bandaríkjaþings að höggva á hnútinn. Til að svo fari þyrfti Kerry að vinna í Arkansas og Bush í Flórída auk þess sem úrslit breytist í tveimur ríkjum. Kerry er spáð naumum sigri í Minnesota og Bush í Missouri. Snúist þetta við fá frambjóðendurnir jafn marga kjörmenn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×