Erlent

Vilja 20 þúsund milljarða bætur

Mál bandaríska ríkisins gegn stærstu tóbaksfyrirtækjum Bandaríkjanna hefst fyrir rétti í dag. Tóbaksfyrirtækin er sökuð um að hafa blekkt almenning og reynt að leyna því hvaða hættur fylgja reykingum þótt þau hefðu vitneskju um þær. Tóbaksfyrirtækin eru einnig sökuð um að hafa beint markaðssetningu tóbaks markvisst til ungmenna og um að hafa reynt að stjórna magni níkótíns í tóbaki í þeim tilgangi að gera fólk háð því. Bandaríska ríkið krefst tuttugu þúsund milljarða króna í bætur. Sú upphæð er reiknuð sem hluti af hagnaði fyrirtækjanna af tóbakssölu síðustu fimmtíu ár. Búist er við því að réttarhöldin taki í það minnsta sex mánuði. Fyrirtækin voru lögsótt fyrir fimm árum síðan þegar Bill Clinton var forseti Bandaríkjanna. Á meðal þeirra fyrirtækja sem eru lögsótt eru: Philip Morris, Reynolds American, Lorillard Tobacco, Liggett Group og British American Tobacco.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×