Innlent

Æ fleiri bækur prentaðar erlendis

Nokkuð hefur færst í vöxt á liðnum árum að íslenskar bækur séu prentaðar erlendis. Sigurður Svavarsson, útgáfustjóri Eddu og formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, segir þó að meirihluti íslenskra bóka sé prentaður hérlendis. "Prentsmiðjur á Íslandi eru vel samkeppnishæfar í gæðum og oft í verðlagningu líka. Tilhneigingin er samt sem áður sú að fleiri bækur verði prentaðar erlendis. Stærstu prentaðilar hérlendis munu líka ábyggilega leita enn frekar eftir verkefnum erlendis á næstu árum," segir Sigurður. Hann segir að erlendar prentsmiðjur sýni íslenskum bókamarkaði þó nokkurn áhuga. "Hingað koma reglulega sölumenn frá norrænum prentsmiðjum og hér á landi starfa aðilar sem miðla prentverki, til dæmis til Lettlands og Slóveníu. Svokallað samprent er líka drjúgur hluti bókaútgáfu á Íslandi og þá ræður íslenski útgefandinn ekki prentstað, heldur kaupir útgáfuréttinn og prentverkið í einum pakka. Samsprentsbækur eru að drjúgum hluta prentaðar í Austurlöndum fjær. Íslenskir útgefendur leita mest með sín verk til prentsmiðja á Norðurlöndum sem sérhæfa sig á ákveðnum sviðum. Útgefendur á Íslandi munu þó áfram kjósa að halda helstu sölubókum sínum hjá innlendum prentsmiðjum, einkum flóknum og mikið myndskreyttum verkum. Menn vilja allra helst geta fylgt þeim eftir alla leið inn á prentsmiðjugólf og svo ekki síst þeim bókum sem menn ætla að mokseljist fyrir jól. Því þurfa útgefendur að geta kallað eftir endurprentunum með afar skömmum fyrirvara sem íslensku smiðjurnar geta einar staðið við," segir Sigurður. Hann segir íslenska lesendur ekki þurfa að hafa áhyggjur af hækkandi bókaverði um jólin. "Verð á prentverki hefur verið hagkvæmt undanfarin ár, pappírsverð hefur verið mjög stöðugt og samkeppnin hefur verið mikil. Þetta er meginástæða þess að útsöluverð á bókum hefur sáralítið breyst, þrátt fyrir að ýmsir aðrir þættir hafi hækkað umtalsvert."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×