Erlent

Kosningar eru áfall fyrir vígamenn

Ayad Allawi, forsætisráðherra í írösku bráðabirgðastjórninni, sagði ekki annað koma til greina en að halda kosningar fyrir lok janúar eins og stefnt hefur verið að. Hann sagði að kosningarnar yrðu mikið áfall fyrir þá sem hafa staðið að baki árásum í Írak undanfarið til að grafa undan bráðabirgðastjórninni. Allawi ræddi við Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, í London í gær. "Þegar við förum í gegnum lýðræðisferilinn, þegar við fetum okkur áfram veginn til lýðræðis, berum við sigurorð af hryðjuverkamönnunum," sagði Allawi að loknum fundi sínum með Blair. "Við ætlum að halda okkur við tímaáætlunina um kosningar í janúar á næsta ári," sagði hann og bætti við. "Við erum staðráðnir í að lýðræði mun hafa betur, mun festa rætur í Írak." Margir hafa orðið til að efast um að mögulegt reynist að halda kosningar í Írak. Kofi Annan, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, sagði í síðustu viku að það yrði ekki hægt að halda trúverðugar kosningar ef öryggismálin væru eins og þau eru nú. Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur einnig lýst áhyggjum af því hvort hægt verði að halda kosningar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×