Erlent

Tveir hafa látið lífið

Þegar hafa tveir látið lífið í Bandaríkjunum af völdum fellibylsins Ívans sem nú hefur náð landi í Alabama-ríki. Enn einn fellibylurinn er að sækja í sig veðrið á Karíbahafinu. Miðja fellibylsins stefnir á bæinn Mobile í Alabama en þar búa um tvö hundruð þúsund manns en íbúar í New Orleans borg geta andað nokkru léttar enda sneiðir Ívan að mestu hjá borginni. Heldur hefur dregið úr styrk fellibylsins sem nú er talinn vera af styrkleika þrjú en var mældur af hæsta styrk, eða fimm, þegar verst lét. Þrátt fyrir það getur Ívan valdið miklum usla. Vindhraða slær upp í 60 metra á sekúndu og veðurbauja á Mexíkóflóa mældi um 16 metra háa öldu í miðju fellibylsins snemma í morgun. Sérfræðingar óttast að slík flóðbylgja gæti valdið gríðarlegu tjóni þegar hún skellur á ströndinni, meðal annars í New Orleans sem er sérstaklega hætt við flóðum þar sem hún liggur að nokkru undir sjávarmáli. Nokkrir hvirfilbylir mynduðust í útjaðri Ívans í nótt og gengu yfir norðvesturhluta Flórída. Tveir létust af völdum þessara hvirfilbylja og um sjötíu byggingar eyðilögðust. Enn einn fellibylur, sem veðurfræðingar hafa nefnt Jeanne, er nú að hefja yfirreið um Karíbahafið. Stormviðvaranir eru á Púertó Ríkó, Jómfrúareyjum og Dóminíkanska lýðveldinu. Það er til marks um fjölda þeirra fellibylja sem gengið hafa yfir svæðið í ár að sá nýjasti heitir nafni sem byrjar á „J“, eða Jeanne. Hefð er fyrir því að sá fyrsti fái nafn sem byrjar á „A“, næsti verði skírður nafni sem byrjar á „B“ og svo koll af kolli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×