Erlent

Tugir látnir og fjölmenni í hættu

Kúbverjar bjuggu sig í gær undir miklar hamfarir en búist var við að fellibylurinn Ívan, sem hefur fengið viðurnefnið grimmi eftir samnefndum rússneskum keisara, gengi yfir eyna í gærkvöld eða í nótt. Þá hafði fellibylurinn, einn sá öflugasti sem hefur riðið yfir Karíbahaf frá því mælingar hófust, nýlega látið til sín taka á Cayman-eyjum. Ívan olli minni skemmdum á Cayman-eyjum en víða annars staðar þar sem hann hefur gengið yfir. Ástæðan er sú að húsnæði þar þolir mun meiri ágang en víða á fátækari eyjum Karíbahafsins. Þó bárust víða að fréttir af því að fellibylurinn hefði feykt þökum af húsum og að flætt hefði inn í hús. Talið er að milli fjórðungur og helmingur húsa á eyjunum hafi orðið fyrir skemmdum þegar fellibylurinn gekk yfir. Svo virðist sem íbúar Cayman-eyja hafi sloppið við mannfall af völdum fellibylsins. Því hefur verið öðruvísi farið annars staðar þar sem hann hefur gengið yfir eða teygt anga sína. Í það minnsta fimmtán létust á Jamaíka og nær 40 á Grenada. Fimm létu lífið af völdum fellibylsins í Venesúela, einn á eynni Tobago og annar á Barbados. Fjögur börn létu lífið í Dóminíska lýðveldinu. Yfirvöld á Kúbu ráðlögðu 1,3 milljónum manna að yfirgefa heimili sín áður en fellibylurinn kæmi til Kúbu. Á vesturhluta eyjunnar kepptist fólk við að taka saman helstu nauðsynjar áður en það hélt á brott til að leita sér öryggis "Það fyllir mig depurð að yfirgefa heimili mitt en ég verð að vernda sjálfan mig og bjarga lífum fjölskyldu minnar," sagði sjómaðurinn Ricardo Hernandez.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×