Erlent

Ivan einn sá öflugasti

Neyðarástandi var lýst yfir á Jamaíka skömmu áður en einn öflugasti fellibylur í sögu landsins gekk yfir með miklum vindum og rigningum í fyrrinótt. Olli hann miklu tjóni á mannvirkjum en ekki hafði frést af mannslátum vegna hans eins og átti sér stað þegar hann gekk yfir Grenada fyrr í vikunni. Þá létust tæplega 30 manns. Rafmagn var tekið af eyjunni áður en Ivan gekk yfir enda rafmagnslínur ekki grafnar í jörðu og geta slitnað auðveldlega í miklum hviðum. Var því rafmagnslaust á eynni og notfærðu þjófar sér það ástand til hins ítrasta þrátt fyrir að hætta væri á ferðum. Var eftir miklu að slægjast þar sem fjöldi fólks á láglendi sótti í neyðarskýli meðan mest gekk á og voru því fjölmörg heimili mannlaus alla nóttina. Hættan er ekki liðin hjá þar sem líkindi eru mikil á aurskriðum og margir bæir eru staðsettir í hæðum og fjöllum. Veðurfræðingar óttast að fellibylurinn geti enn færst í aukana en hann stefnir að Ceymaneyjum og ekki er útilokað að Ivan grimmi eins og íbúar á svæðunum kalla fellibylinn, fari yfir Kúbu og Flórídaskagann á næstunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×