Erlent

Árangur í hryðjuverkastríðinu?

Það er umdeilt hvort árangur hafi náðst í stríðinu sem hófst í kjölfar árásanna á Bandaríkin fyrir þremur árum. Eitt er þó víst: al-Kaída samtökin eru enn starfandi og Osama bin Laden gengur enn laus. Hver er árangur hryðjuverkastríðsins? Svarið virðist að öllu leyti fara eftir því hver verður fyrir svörum. Bush Bandaríkjaforseti lýsti því yfir á flokksþingi repúblikana fyrir skömmu að búið væri að handsama eða drepa um þrjá fjórðu af helstu leiðtogum al-Kaída. Osama bin Laden gengur þó enn laus og svo virðist sem al-Kaída eða tengd samtök skorti ekki nýliða. Stríðið í Írak hefur að einhverju leyti séð fyrir því að menn fylkjast nú um boðskap og hugmyndafræði al-Kaída og vilja vinna Bandaríkjunum og Vesturlöndum sem mest tjón. Ein af umdeildari afleiðingum hryðjuverkastríðsins er einmitt að óvinurinn er orðinn dreifðari og illviðráðanlegri. Al-Kaída samtökin sjálf hafa umbreyst í kjölfar innrásar Bandaríkjanna í Afganistan. Leiðtogar samtakanna tvístruðust á flótta og efast er um að þeir hafi bolmagn til að standa að meiriháttar hryðjuverkum í dag. Það er hins vegar kaldhæðnisleg staðreynd að al-Kaída menn hafa síðustu misseri alls ekki þurft að standa að hryðjuverkum sjálfir, svo margir aðrir eru um hituna. Hryðjuverkin í Madríd eða í Jakarta í Indónesíu voru ekki fjarstýrð eða skipulögð beint af al-Kaída samtökunum. Þetta voru menn sem fylgdu sömu hugmyndafræði og svipaða sögu má segja um marga þá hryðjuverkamenn sem berjast í Tsjetsjeníu. Forsvarsmenn al-Kaída hafa því breyst úr beinum gerendum í hugmyndafræðilega forystumenn sem veita öðrum innblástur. Það má því segja að þó árangur stríðsins sé umdeildur er óumdeilt að enginn sigur er í höfn og margir hafa tapað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×