Erlent

Ívan sveigði af leið

Fellibylurinn Ívan sveigði af leið á síðustu stundu og miðja hans fór því ekki beint yfir höfuðborg Jamaíka eins og spáð hafði verið. Þó létust að minnsta kosti tveir. Hættan er ekki liðin hjá því Ívan heldur áfram för og næst verður Kúba fyrir barðinu á honum. Fellibylurinn gekk yfir Jamaíka í nótt og í morgun. Það varð ekki ljóst fyrr en á síðustu stundu að, sem betur fer, hafði Ívan sveigt aðeins í vestur svo miðja hans fór ekki beint yfir höfuðborgina og landið allt eins og áætlað var en lenti á sjónum. Þrátt fyrir það var fárviðri á Jamaíka; vindur fór upp í 65 metra á sekúndu, tré og ljósastaurar rifnuðu upp með rótum, flóðbylgjur gengu á land, vatn flæddi um götur og rafmagnið fór af allri eyjunni. Þjófar og ræningjar notuðu tækifærið sem gafst þegar fólk flúði heimili sín og létu greipar sópa í miðborg höfuðborgarinnar Kingston. Tíu ára stúlka drukknaði í sjónum og kona lést þegar tré féll á heimili hennar. Jamaíkabúar eru enn varaðir við því að vera á ferli því áfram verður hætta á aurskriðum og vatnsflóðum. Hingað til hefur smáeyjan Grenada orðið verst úti í fellibylnum. Þar létust 37 manns og Alþjóða Rauði krossinn áætlar að um tveir þriðju hlutar íbúanna séu heimilislausir. Fellibylurinn heldur nú áfram og er líklegt að hann gangi á land á Kúbu í nótt. Í hvert sinn sem hann fer yfir sjó þá sækir hann í sig veðrið og vindhraðinn eykst. Búist var við að á eftir Kúbu myndi syðsti hluti Flórída verða fyrir barðinu á Ívan en sökum þess að hann hefur aðeins breytt um stefnu þykir nú allt eins líklegt að Ívan endi sína lífdaga úti á Mexíkóflóa og láti Flórídabúa í friði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×