Erlent

2 létust í lestarslysi í Svíþjóð

Tveir létust og fjörutíu og sjö slösuðust þegar lest ók á flutningabíl í suðurhluta Svíþjóðar í morgun. Margir lestarfarþeganna voru börn og unglingar á leið í skóla.  Það var skömmu eftir klukkan níu í morgun sem slysið varð og lestin, lítil héraðslest, var full af fólki sem var ýmist á leið til vinnu eða í skóla. Lestin var á leið frá Karlskrona til Kristianstad á Skáni og var um það bil að ná áfangastað þegar hún rakst á flutningabíll sem var á lestarteinunum. Fyrsti lestarvagninn valt við áreksturinn og tveir létu lífið, þar á meðal lestarstjórinn. Langan tíma tók að ná öllum farþegunum út úr vögnunum sem voru illa farnir. Sjónarvottar, meðal annars skólabörn í nærliggjandi skóla, segjast hafa heyrt farþegana hrópa á hjálp inni í vögnunum. Það var ekki fyrr en síðdegis, þegar búið var að lyfta lestarvagninum sem valt með tveimur krönum, sem yfirvöld gátu gengið úr skugga um að þar væri ekki fólk. Nú virðist sem flutningabíllinn hafi staðið fastur á lestarteinunum vegna þess að hliðin sem loka fyrir umferð yfir teinana lokuðust einmitt þegar bíllinn var kominn miðja vegu. Hann náði því ekki yfir í tæka tíð og því fór sem fór.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×