Erlent

Hálf milljón íbúa Jamaíku flýja

Hálf milljón íbúa Jamaíku hefur verið hvött til að flýja heimili sín áður en fellibylurinn Ívan nær ströndum eyjarinnar í kvöld. Íbúar í Kingston hafa í allan dag unnið hörðum höndum að því að verja heimili sín og festa allt lauslegt. Að minnsta kosti tuttugu og sjö manns hafa þegar látist í veðurofsanum en fellibylurinn fór yfir Grenada á síðasta sólarhring. Frá Jamaíka er líklegt að Ívan haldi yfir Kúbu og komi svo að landi við Key West í Flórída um helgina. Íslendingur sem þar er staddur sagði í samtali við fréttastofu í dag að svæði þar væru skipulega rýmd. Lögregla hefði strax í gærmorgun rekið alla ferðamenn á brott og lokað flugvöllum. Myndin sýnir húsarústir í Grenada eftir að fellibylurinn fór þar yfir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×