Erlent

Fjölmenni á slóð lykilsins

Spennusagan Da Vinci lykillinn selst ekki bara eins og heitar lummur heldur hafa margir lesendur hrifist svo mjög að þeir leggja á sig löng ferðalög til að sjá staðina sem koma við sögu í bókinni. Nú er svo komið að nokkur fyrirtæki bjóða upp á skipulagðar ferðir fyrir þá sem vilja komast að því hversu mikið í bókinni á við rök að styðjast. Sagan segir að áður en Da Vinci lykillinn eftir Dan Brown varð að metsölubók hafi bandarískur ferðalangur í Saint-Sulpice kirkjunni í París varað prestinn þar við því að bókin ætti eftir að valda honum miklum vanda. Það virðist hafa gengið eftir því fjöldi gesta leggur leið sína í kirkjuna til að mynda broddsúlu sem kemur við sögu í einu af upphafsatriðum bókarinnar. Fyrir Paul Roumanet, prest kirkjunnar, hefur þessi nýfengna frægð síður en svo reynst blessun. Hann fékk á endanum leið á því að svara spurningum lesenda út frá bókinni og setti upp skilti sem hefst á orðunum: "Þvert á þær stórfurðulegu staðhæfingar sem birtast í nýlegri metsölubók..." Aðrir hafa fagnað þessum mikla áhuga lesenda, einkum og sér í lagi fyrirtæki í ferðaþjónustu sem hafa tekið vel við sér, hvort tveggja í Frakklandi og Bretlandi. Í það minnsta þrjú fyrirtæki bjóða upp á sérstakar Da Vinci lykils ferðir í París, önnur fyrirtæki bjóða upp á sams konar ferðir í London og víðar á Bretlandi. Mjög misjafnt er hvernig ferðaþjónusturnar taka á bókinni. "Ráðgátur höfða alltaf til fólks," sagði Jason Doll-Steinberg hjá British Tours sem bjóða hvort tveggja upp á Da Vinci ferðir og ferðir til Stonehenge. Meðal þeirra sem hafa farið í Da Vinci ferðina eru Madonna og eiginmaður hennar, leikstjórinn Guy Ritchie. Jean-Manuel Traimond, hjá Escape í Frakklandi, er ekki jafn sáttur og kallar ferð sína "Da Vinci svindls ferðina". "Brown býr til brýr sem eru ekki til, setur tré þar sem engin eru," segir hann og bætir við. "Hann heldur því fram að Godefroy de Bouillon hafi verið konungur Frakklands, sem hann var aldrei."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×