Erlent

Vara við borgarastríði

Ísrael er á barmi borgarastríðs vegna áforma Ariels Sharon forsætisráðherra um að flytja ísraelska landtökumenn frá Gaza-svæðinu að sögn forystumanna landtökumanna. "Tvennt getur gerst ef þessar áætlanir verða framkvæmdar án þess að þær verði bornar undir ísraelsku þjóðina í kosningum," sagði Eliezer Hasdai, einn forystumanna landtökumanna. "Annar kosturinn er að hermenn og herforingjar neiti að flytja fólk frá heimilum sínum. Hinn kosturinn er augljóslega borgarastríð í einhverri mynd," sagði hann. "Ef einhver dirfist að koma og snerta við gröf dóttur minnar, hvort sem það er óbreyttur hermaður eða yfirmaður hersins, þá skýt ég hann," sagði Hasdai í viðtali við dagblaðið Maariv. Sharon segist í engu ætla að breyta stefnu sinni. "Áætlunin verður framkvæmd hvað sem öðru líður," sagði hann í viðtali við dagblaðið Jerusalem Post. Sharon hefur mætt mikilli mótstöðu við áætlunina um brotthvarf frá Gaza, ekki síst í sínum eigin flokki. Ungliðar í flokki hans bauluðu á hann á fundi og kröfðust afsagnar hans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×