Erlent

5 ára stúlka lifði af sprenginguna

Fimm ára áströlsk stúlka, sem talið var að hryðjuverkamenn hefðu drepið í árás þeirra á ástralska sendiráðið í Indónesíu í gær, er á lífi. Móðir hennar lést í árásinni. Elísabet Manuela Banbin Musu var ásamt móður sinni, Maríu Evu, á leið í ástralska sendiráðið til að ná í vegabréf þegar sprengjan sprakk. María Eva, sem var 27 ára, lést í sprengingunni og í fyrstu var talið að litla dóttir hennar hefði einnig týnt lífi. Það var því fagnaðarefni þegar fréttist að stúlkan lifir enn. Hún er þó alvarlega slösuð og var send á sjúkrahús í Singapúr. Lögregla telur nú líklegt að sjálfsmorðsárásarmaður hafi komið sprengjunni fyrir og telur sig hafa fundið hvaða bíll var notaður í verknaðinn. Komið hefur í ljós að varað var við bílasprengjunni um fjörutíu og fimm mínútum áður en hún sprakk. Þá sendu öfgasamtökin Jemaah Islamiah símaskilaboð á lögregluna og kröfðust þess að leiðtoginn Abu Bakar Bashir yrði látinn laus úr fangelsi. Samtökin, sem talið er að starfi náið með al-Kaída hryðjuverkasamtökunum, segja að ástralska sendiráðið hafi orðið fyrir valinu vegna þátttöku Ástrala í stríðinu í Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×