Erlent

Þjóðarmorð í Súdan segir Powell

Hvenær eru fjöldamorð þjóðarmorð og hvenær ekki? Það er spurningin sem vestrænar þjóðir og yfirvöld í Súdan deila um þessa dagana. Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lýsti því yfir í gær að framferði Súdanstjórnarinnar í Darfur væri ekkert annað en þjóðarmorð og hvatti þjóðir heims til að veita fé í friðargæslu í héraðinu. Ríkisstjórn Súdans segir á móti að Bandaríkjastjórn sé í orðaleik. Ráðamenn í Bandaríkjunum séu að reyna að mála ástandið verri litum en efni standa til; þetta sé pólitískur leikur nú á kosningaári til að ganga í augun á bandarískum blökkumönnum. Breska ríkisstjórnin hefur ekki viljað taka undir yfirlýsingar Bandaríkjastjórnar og lýsa ástandi í Darfur sem þjóðarmorði, aðallega vegna þess að nauðsynlegt sé að halda Súdanstjórn góðri til að unnt sé að koma nauðsynlegri neyðaraðstoð til flóttamanna. Í augum flestra skiptir þó ekki öllu máli hvaða merkimiði er notaður til að lýsa ástandinu í Darfur, aðeins að gripið sé í taumana. Sameinuðu þjóðirnar áætla að um fimmtíu þúsund manns hafi látið lífið í átökum þar að undanförnu og tólf hundruð þúsund manns hafi flúið heimili sín. Og Sameinuðu þjóðirnar eru ekki í vafa um sinn merkimiða: stofnunin segir að þetta sé verstu hörmungar í heiminum í dag, þarna ríki algert neyðarástand.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×