Erlent

Drengurinn slapp lifandi

Rússneski drengurinn sem sést mjög greinilega á myndbandi hryðjuverkamannanna í Beslan slapp lifandi úr skólanum. Mæðgur sem sátu við hliðina á honum létu lífið. Myndbandið sem sýnir gíslana inni í barnaskólanumn í Beslan, skömmu eftir að hryðjuverkamennirnir ruddust þar inn, hefur farið sem eldur um sinu um heiminn og fólk fýsir að vita hvað varð um þá einstaklinga sem þar sjást. Sima Alikova og dóttir hennar, Irina, sem á myndbandinu sjást sitja dauðskelkaðar á gólfinu, skammt frá hryðjuverkamanni sem sýnir sprengjur, létust báðar í árásinni. Fjölskylda þeirra syrgir ákaft og segir eiginmaður Simu og faðir Irinu að hann trúi þessu ekki enn. Hann líkir þessu við draum og honum finnst að þær muni allt í einu kalla til sín og birtast.  Drengurinn sem situr við hlið Simu og Irinu á myndbandinu,Georgy Farniyev, slapp hins vegar lífs úr skólanum. Björgun hans er kraftaverki líkust. Hann særðist ekkert þegar sprengjan við hliðina á honum sprakk. Georgy komst svo út úr leikfimisalnum og inn í matsalinn en þar segir hann að handsprengja hafi sprungið og hann fengið sprengjubrot úr henni í sig. Hann hafi þá togað brotið úr handleggnum á sér og falið sig svo inni í skáp í eldhúsinu á meðan skothríð og sprengingar ómuðu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×