Erlent

Rússneskir ráðamenn ævareiðir

Ráðamenn Rússlands eru ævareiðir og segja Vesturlönd sýna tvískinnung í afstöðunni til hryðjuverkamanna. Þeir vilja að umheimurinn bregðist eins við hryðjuverkum í Rússlandi og Bandaríkjunum. Al-Kaída og hryðjuverkamenn Tsjetsjena eru bara tvær hliðar á sama tening, segja rússnesk stjórnvöld og hafa brugðist afar illa við öllum tillögum þess efnis að tími sé kominn að ræða við uppreisnarmenn í Tsjetsjeníu. Utanríkisráðherra Rússa sagði í dag að þessi afstaða Vesturlanda sýndi tvískinnung sem væri sprottinn upp úr kalda stríðs hugsunarhætti. Flestir fréttaskýrendur og fræðimenn sem fjallað hafa um málið eru þó á öndverðum meiði og segja að ekki sé hægt að leggja þetta að jöfnu; Al-Kaída annars vegar og alla aðskilnaðarhreyfingu Tsjetsjena hins vegar. Vissulega eru margir í aðskilnaðarhreyfingu Tsjetsjena ótíndir hryðjuverkamenn og það er líka staðreynd að Al-Kaída hefur orðið nokkuð ágengt í því að efla tengsl sín við þessa menn. Hins vegar fer því fjarri að allir þeir Tsjetsjenar sem vilja sjálfstæði héraðsins séu á bandi hryðjuverkamanna eins og rússnesk stjórnvöld vilja oft láta líta út fyrir enda er sjálfstæðishreyfingin margklofin. Rússar hafa hins vegar alfarið neitað að ræða við alla aðskilnaðarsinna, líka þá hófsamari eins og Aslan Maskhadov hefur jafnan verið talinn, og nú hefur verið sett fé til höfuðs honum. Margir vilja því að einhverju leyti kenna rússneskum stjórnvöldum sjálfum um það hversu óviðráðanlegt þetta vandamál er orðið þar sem fimm ára blóðugt stríð virðist aðeins hafa alið af sér aukinn fjölda harðlínumanna. Mikhaíl Gorbachev, fyrrverandi forseti Sovétríkjanna sálugu, er einn af þeim sem nú hefur hvatt stjórnvöld í Rússlandi til að brjóta odd af oflæti sínu og hefja einhvers konar viðræður við sjálfstæðissinna í Tsjetsjeníu. Myndin sýnir ættingja fórnarlamba hryðjuverkanna í Beslan á dögunum syrgja ástvini sína.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×