Erlent

Þjóðarmorð framin í Darfur

"Við höfum komist að þeirri niðurstöðu að þjóðarmorð hafi verið framið í Darfur og að súdanska ríkisstjórnin og Janjaweed beri á því ábyrgð. Það getur verið að þjóðarmorð eigi sér enn stað," sagði Colin Powell, utanríkismálaráðherra Bandaríkjanna. Janjaweed eru arabískar vígasveitir sem starfa með stjórnarhernum. Með yfirlýsingu sinni jók Powell þrýsting á alþjóðasamfélagið að grípa til aðgerða til að tryggja að ofsóknum á hendur þeldökkum íbúum Darfur linni. Þrýst hefur verið á súdönsk stjórnvöld að grípa til aðgerða en umdeilt er hvort það hafi skilað árangri. Niðurstöðu sína byggði Powell á rannsókn nefndar sem átti viðtöl við flóttamenn frá Darfur auk þess að safna öðrum sönnunargögnum. Þetta er í fyrsta skipti sem Powell segir að þjóðarmorð hafi átt sér stað en áður hafði hann ýjað að því að um þjóðarmorð kynni að vera að ræða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×