Erlent

Getum alltaf átt von á árásum

Átta létu lífið þegar sprengja sprakk fyrir framan ástralska sendiráðið í Djakarta, höfuðborg Indónesíu, í gærmorgun. Hátt í 200 manns slösuðust í sprengingunni, sem var gríðarlega öflug. Á síðustu fimm árum hafa 260 manns látist í níu hryðjuverkaárásum í Indónesíu. Þeirra mannskæðust var sprengjuárásin á skemmtistað á ferðamannaeyjunni Balí þar sem 202 létu lífið. 33 meðlimir Jemaah Islamiyah-samtakanna hafa verið sakfelldir fyrir þá árás. Eftir árásina í gær voru stjórnvöld fljót að saka samtökin um að standa að henni. "Eftir það sem gerðist í Rússlandi og þetta stimplast það enn betur inn í kollinn á manni að maður er hvergi óhultur," segir Ómar Valdimarsson, sem hefur starfað í Djakarta í eitt ár á vegum Rauða krossins. "Í þessu landi getur maður alltaf átt von á þessu." "Í Djakarta eru gríðarlegar öryggisráðstafanir alls staðar. Hér fer enginn inn í stóru verslanirnar án þess að bílarnir séu speglaðir og að fólk fari í gegnum málmleitartæki. Það er skýrt eftirlit með öllu. Það hefur að vísu slaknað á því að undanförnu og fólk hefur hugsað með sér sem svo að þetta hljóti að vera í lagi núna. Árásin nú sýnir að það borgar sig kannski ekki að slaka mikið á," segir Ómar. Ómar býr nálægt ástralska sendiráðinu og vinnur í nágrenninu. Til að komast á milli fer hann um götuna þar sem sprengjan sprakk og var þar á ferð nokkru fyrir árásina. Útlendingar eru mjög varir um sig að sögn Ómars, sérstaklega Bandaríkjamenn og Ástralar. "Það er litið á Ástrala hér eins og Ameríkana í Evrópu. Dálitlir stóru bræður og tala svolítið digurbarkalega," segir hann. Bandaríkjamenn voru fljótir að bregðast við eftir árásina og voru búnir að bjóða Rauða krossinum fjárhagsaðstoð til að hjálpa særðu fólki stundarfjórðungi eftir að árásin var gerð. Auk hryðjuverkaárásanna eiga vopnuð átök sér stað á nokkrum stöðum í Indónesíu og það verða menn að hafa í huga þegar þeir ferðast þar um, segir Ómar. Fram undan er mikil ferðahelgi en mánudagur er frídagur vegna himnafarar Múhameðs spámanns. Ómar er á leið til Balí með 20 manna hópi vegna fundar. Hann segir óvíst hvort hópurinn komist vegna mikils öryggisviðbúnaðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×