Erlent

Hótar að reka Arafat úr landi

Ísraelsk stjórnvöld eru nær því nú en nokkru sinni áður að reka Jasser Arafat, forseta Palestínu, frá heimastjórnarsvæðum Palestínumanna, sagði Silvan Shalom, utanríkisráðherra Ísraels, þegar hann ávarpaði flokkssystkin sín í Likudbandalaginu. Óvíst er þó hvort alvara búi að baki orðum hans og Shalom hafi aðeins verið að styrkja stöðu sína innan flokksins. Háttsettir ísraelskir embættismenn sögðu engar áætlanir uppi um að víkja Arafat úr landi. Shalom er talinn einn af hugsanlegum eftirmönnum Ariels Sharon forsætisráðherra sem leiðtogi Likudbandalagsins. Hann sækir stuðning sinn til harðlínumanna sem vilja lítið eða ekkert gefa eftir gagnvart Palestínumönnum. Palestínumenn brugðust illa við málflutningi hans. "Ég tel þetta hluta af herferð til að eyðileggja palestínsku heimastjórnina og skaða forsetann," sagði Saeb Erekat, ráðherra í palestínsku heimastjórninni. Sjö Palestínumenn féllu fyrir hendi Ísraela í gær, þeirra á meðal níu ára drengur en einnig menn sem reyndu að skjóta flugskeytum á landnemabyggðir Ísraela.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×