Erlent

Fé til höfuðs Tsjetsjenum

Rússneska leynilögreglan hefur boðið andvirði rúmra 700 milljóna króna hverjum þeim sem veitir henni upplýsingar sem leiða til þess að tveir tsjetsjenskir uppreisnarmenn verði handteknir eða þeim komið fyrir kattarnef. Mennirnir eru Shamil Basayev og Aslan Maskhadov sem Rússar gruna um að hafa skipulagt gíslatökuna í Beslan sem endaði með blóðbaði. Einn af æðstu herforingjum Rússa ítrekaði þá stefnu stjórnvalda að þau áskildu sér rétt til að láta til skarar skríða gegn hryðjuverkamönnum hvar og hvenær sem er. "Við munum grípa til hvaða ráða sem er til að eyða bækistöðvum hryðjuverkamanna hvar í heiminum sem er," sagði hershöfðinginn Yuri Baluyevsky sem situr í yfirstjórn rússneska hersins. Rússar hafa áður lýst þessari stefnu sinni. Þannig hafa Rússar varað stjórnvöld í Georgíu, sem liggur að Tsjetsjeníu, við því að þeir kunni að ráðast gegn tsjetsjenskum uppreisnarmönnum sem þeir segja fela sig í Georgíu. Fyrr á árinu voru tveir Rússar dæmdir í Kvatar við Persaflóa fyrir að myrða leiðtoga tsjetsjenskra uppreisnarmanna. Borin hafa verið kennsl á lík tólf gíslatökumanna að sögn rússneskra yfirvalda og eru sumir þeirra sagðir hafa tekið þátt í árás á lögreglu í nágrannaríkinu Ingúsetíu fyrr á árinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×