Erlent

Rán tveggja kvenna veldur uppnámi

Tveimur ítölskum konum, sem starfa fyrir hjálparsamtök í Írak, var rænt á skrifstofum samtakanna í gær. Málið hefur valdið miklu uppnámi á Ítalíu enda skammt síðan mannræningjar myrtu ítalskan fréttamann í Írak. Um tuttugu byssumenn ruddust inn á skrifstofur ítölsku hjálparsamtakanna, Brú til Bagdad, um miðjan dag í gær og rændu konunum sem báðar eru 29 ára gamlar. Starf þeirra í Bagdad fólst aðallega í því að sjá sjúkrahúsum fyrir hreinu vatni og súrefniskútum og aðstoða við uppbyggingu skóla í borginni. Auk kvennanna tveggja, voru tveir írakskir aðstoðarmenn hjálparsamtakanna teknir höndum. Byssumennirnir segjast tilheyra hópi sem kallar sig Ansar al-Zawahri og í orðsendingu frá þeim hóta þeir að þetta rán sé aðeins hið fyrsta af mörgum þar sem reynt verður að ræna ítölskum ríkisborgurum. Skemmst er að minnast þess að ítalskur fréttamaður, Enzo Baldoni, var myrtur af mannræningjum í Írak fyrir skömmu, eftir að ítölsk stjórnvöld höfðu þvertekið fyrir að verða við kröfum mannræningjanna um að draga herlið sitt út úr Írak. Ríkisstjórn Ítalíu hefur þungar áhyggjur af þessari þróun mála og hefur kallað saman neyðarfund með helstu stjórnmálaleiðtogum Ítalíu í dag. Almenningur á Ítalíu er reiður og krefst þess að yfirvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að leysa málið. Írakskir öfgahópar hafa rænt um 100 útlendingum í Írak frá því í mars á síðasta ári. Flestum hefur verið sleppt í kjölfarið en mannræningjar hafa þó tekið um 25 af lífi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×