Erlent

Halda fjölmiðlum í járngreipum

Pútín Rússlandsforseti þvertekur fyrir viðræður við barnamorðingja og aðskilnaðarsinna í Tsjetsjeníu, og segir eins hægt að stinga upp því á að Ósama bin Laden komi til fundar í Hvíta húsið. Opinber rannsókn á hryðjuverkunum í Ossetíu kemur ekki heldur til greina. Rússneskur almenningur veit þó lítið um málið þar sem ríkið heldur fjölmiðlum í járngreipum. Tugir þúsunda söfnuðust saman við Kremlina í Moskvu í dag til að minnast þeirra sem féllu í Norður-Ossetíu og mótmæla hryðjuverkum. Stjórnvöld skipulögðu uppákomuna og saka stjórnarandstæðingar þau um að reyna með þessu móti að breiða yfir mistök Pútíns forseta og sérsveitanna í Beslan. Pútín forseti virðist ekki hafa mikinn áhuga á opinberri umfjöllun um málið. Hann vill ekki opinbera rannsókn á þeim forsendum að það bjóði upp á pólitískan skrípaleik. Umfjöllun rússneskra fjölmiðla er einnig eftir hans höfði því eftir harmleikinn í leikhúsinu í Moskvu fyrir tveimur árum voru settar strangar reglur um hvernig umfjöllun um slíka atburði skyldi vera: byggja skyldi á upplýsingum frá opinberum aðilum, ekkert mætti vera falið til að æsa almenning eða hjálpa glæpamönnum, eins og það var orðað. Pavel Gutyonov, talsmaður rússneska blaðamannafélagsins, er síður en svo ánægður. Hann segir ríkissjónvarpið hafa sýnt nákvæmlega þær hættur sem þjóðin standi frammi fyrir ef ríkisstjórnin haldi áfram að stjórna upplýsingastreyminu til almennings um gerðir sínar. „Sjónvarpið ber fram helberar, blygðunarlausar lygar. Það er augljóst að sjónvarp sem ríkisvaldið stjórnar er sjónvarp sem verður að leita samþykkis ríkisins áður en það segir nokkurn skapaðan hlut eða sýnir nokkrar myndir. Þannig er það algjörlega ófagmannlegt,“ segir Gutyonov. Gagnrýnir blaðamenn lentu í vandræðum á leið sinni til Ossetíu: veiktust eða urðu fyrir öðrum skakkaföllum sem hindruðu för þeirra. Ritstjóri dagblaðsins Izvestia varð að taka pokann sinn eftir að hluthafar hliðhollir stjórnvöldum brugðust illa við umfjöllun blaðsins um helgina. Tsjetjenskir aðskilnaðarsinnar virðast Pútín jafn lítið að skapi og gagnrýnir fréttamenn. Hann sagði í viðtali við dagblaðið Guardian að þeir sem vildu viðræður við uppreisnarleiðtoga í Tsjetsjeníu væru samviskulausir og spurði hvort ekki væri þá rétt að bjóða Ósama bin Laden til Brüssel eða í Hvíta húsið í Washington til að ræða kröfur hans. Enginn hefði rétt til að skipa Rússum að setjast að samningaborði með barnamorðingjum. Á myndinni sjást rússneskir menn í Ossetíu lesa um harmleikinn í dagblaði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×