Erlent

Þingið fór tífalt fram úr áætlun

Skotar hafa getið sér orðspor fyrir nísku en þess verður ekki vart á skoska þinginu. Glæsileg bygging sem hýsir þingið hefur verið tekin í notkun, þremur árum á eftir áætlun og eftir að framkvæmdir reyndust tífalt dýrari en upphaflega var gert ráð fyrir. Ráðist var í byggingu nýja þinghússins eftir að breska þingið samþykkti að framselja Skotum sjálfræði í málaflokkum á við heilbrigðismál, dómsmál og menntamál. Í upphafi var gert ráð fyrir að byggingin kynni að kosta á bilinu 130 til 520 milljónir króna. Á endanum kostaði hún rúma fimm milljarða og voru ástæðurnar fyrir framúrkeyrslunni margvíslegar. Á byggingartímanum var ákveðið að hafa húsið tvöfalt stærri en upphaflega var gert ráð fyrir, hönnun hússins var breytt og andlát hönnuðar hússins, Enric Miralles, og fyrsta forsætisráðherra Skota, Donald Dewar, höfðu sitt að segja. Þrátt fyrir að framkvæmdir hafi tafist um þrjú ár og farið tífalt fram úr kostnaðaráætlun er þeim ekki alveg lokið. Smiðir voru enn að störfum í sumum hlutum hússins þegar þingmenn komu til starfa í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×