Erlent

Víst má vinna baráttuna

Degi eftir að George W. Bush Bandaríkjaforseti sagði í sjónvarpsviðtali að líklega væri ekki hægt að vinna sigur í baráttunni gegn hryðjuverkum virtist hann kominn á öndverða skoðun. "Við hittumst á stríðstímum, þegar land okkar á í stríði sem það hóf ekki en mun fagna sigri í," sagði Bush á fundi með fyrrverandi hermönnum í Nashville í gær. Ummæli hans í ræðunni í gær eru þvert á þau sem hann lét falla í viðtali á sjónvarpsstöðinni NBC í fyrradag. "Ég held að við getum ekki unnið baráttuna," sagði hann þá og vöktu ummæli hans mikla athygli. Demókratar voru fljótir að veitast að honum fyrir þetta þó svo að frambjóðandi þeirra, John Kerry, hafi lýst svipuðum viðhorfum, að ekki væri hægt að kveða hryðjuverkamenn endanlega í kútinn með núverandi aðferðum. John Edwards, varaforsetaefni demókrata, var fljótur að bregðast við eftir fyrri ummælin. "Hvað ef Ronald Reagan hefði sagt að það væri ekki hægt að vinna baráttuna gegn kommúnismanum? Hvað ef aðrir forsetar hefðu sagt að ekki væri hægt að vinna Kalda stríðið?"



Fleiri fréttir

Sjá meira


×