Erlent

Demókrati í röðum repúblikana

Öldungadeildarþingmaðurinn Zell Miller er heldur betur frábrugðinn öðrum ræðumönnum á flokksþingi repúblikana sem hafa það verkefni að sannfæra Bandaríkjamenn um að kjósa George W. Bush forseta í haust. Ástæðan er einföld. Miller er demókrati og hefur setið á þingi fyrir þá frá árinu 2000 en var um sextán ára skeið vararíkisstjóri í Georgíu, fyrir demókrata. Miller er meðal aðalræðumanna á flokksþingi repúblikana í dag. Hinn 71 árs Miller, sem hefur aldrei kosið repúblikana, segir að aðstæður hafi breyst svo mikið að nú sé ekki annað hægt en að kjósa Bush og vísar þar til hryðjuverkaárásanna 11. september 2001. "Enginn annar getur veitt landinu forystu," segir Miller nú. Fyrir tólf árum kynnti hann annað forsetaefni til sögunnar á flokksþingi. Sá hét Bill Clinton. Þá dró hann ekki úr gagnrýni sinni á repúblikana. "Í tólf myrk ár hafa repúblikanar alið á tortryggni og efa. Þeir hafa breytt því í listform að ala á úlfúð og þeir hafa rænt okkur voninni," sagði hann um forseta- og varaforsetatíð George Bush, föður núverandi forseta.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×