Erlent

Reyna enn að mynda stjórn

Harðlínumenn á sitt hvorum væng norður-írskra stjórnvalda hefja í dag enn eina tilraunina til að mynda starfhæfa ríkisstjórn, nokkuð sem hefur reynst þeim um megn. Viðræðurnar hefjast á sama tíma og þess er minnst að áratugur er síðan Írski lýðveldisherinn tilkynnti um vopnahlé, sem hefur reyndar ekki alltaf haldið. Allir sem að viðræðunum koma eru sammála um að lykillinn að árangri er að Írski lýðveldisherinn gefi nógu ákveðin fyrirheit um frið og afvopnun til þess að sambandssinnaflokkur harðlínumótmælandans Ian Paisley samþykki að mynda stjórn með Sinn Fein, harðlínuflokki kaþólikka. Það eru líka allir sammála um að það reynist mjög erfitt. Forsætisráðherrar Bretlands og Írlands, Tony Blair og Bertie Ahern, hafa lagt mjög hart að deilandi fylkingum að ná samkomulagi fljótlega, ella kunni þeir að fara aðra leið við að mynda stjórn á Norður-Írlandi. Heimastjórnin sem mynduð var eftir kosningar á grundvelli friðarsamkomulagsins sem kennt var við föstudaginn langa sprakk eftir að í ljós kom að Sinn Fein hafði aðstoðað Írska lýðveldisherinn við njósnir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×