Erlent

Tólf gíslar myrtir

Mikil reiði ríkir í Nepal eftir að tólf þarlendir gíslar voru myrtir af vígamönnum í Írak. Reiðin beinist hvort tveggja að morðingjunum en ekki síður að stjórnvöldum í Nepal sem þykja ekki hafa gert nóg til að tryggja lausn gíslanna. "Hvaða syndir hef ég drýgt til að eiga þetta skilið?" spurði Jit Bahadur Khadka, faðir nítján ára pilts, Ramesh, sem var einn þeirra tólf sem voru myrtir. "Við vonuðum að bróðir okkar sneri aftur en ríkisstjórnin gerði ekki nóg til að fá þá leysta úr haldi," sagði Sudarshan Khadka, bróðir Ramesh. Upptaka af morðunum á gíslunum tólf var birt á vef sem tengist hóp íraskra vígamanna. Myndir af morðunum birtust á nokkrum vefjum íslamskra öfgamanna. Á myndbandinu sést grímuklæddur maður skera einn gíslanna á háls og annar skjóta hina gíslana ellefu í höfuðið. Stjórnvöld í Nepal hafa bannað þegnum sínum að vinna í Írak en margir freistast þó til þess í von um að geta framfleytt sér og fjölskyldum sínum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×