Erlent

Yfirburðasigur í Tsjetsjeníu

Rússneskum stjórnvöldum varð að ósk sinni þegar Alu Alkhanov var lýstur sigurvegari tsjetsjensku forsetakosninganna með nær 74 prósent greiddra atkvæða. Þessi helsti yfirmaður lögreglunnar í Tsjetsjeníu naut stuðnings stjórnvalda í Moskvu og hafa stjórnarandstæðingar kvartað undan víðfeðmu kosningasvindli. Alkhanov tekur því við forsetaembættinu sem Akhmad Kadírov gegndi þegar hann var ráðinn af dögum í maí. Kadírov varð sá fjórði af síðustu fimm forsetum landsins til að verða ráðinn af dögum meðan hann gegndi embætti. Embættið hlýtur því að teljast eitthvað það hættulegasta sem völ er á. Rússar vonast til þess að Alkhanov takist að draga máttinn úr aðskilnaðarsinnum sem hafa háð vopnaða uppreisn gegn Rússum meira og minna síðasta áratuginn. Viðhorf almennings til hans er þó öllu blendnara. Sumir vonast til að honum takist að koma á friði, aðrir telja hann aðeins lepp Moskvustjórnar. Það er ekki nýtt að alvarlegar athugasemdir séu gerðar við kosningar í Tsjetsjeníu. Kosningunum þegar Akhmad Kadírov var kjörinn forseti í fyrra var lýst sem farsa sem ætti lítið skylt við lýðræðislegar kosningar. Kjörstjórn segir að um 80 prósent atkvæðabærra manna hafi greitt atkvæði í kosningunum á sunnudag. Aðrir hafa bent á að lítið hafi verið um að vera á sumum kjörstöðum. Kvartað hefur verið undan því að þrýst hafi verið á kjósendur að kjósa Alkhanov á sumum kjörstöðum og að miklum fjölda tilbúinna atkvæðaseðla með nafni Alkhanov hafi verið smyglað í kjörkassana. Að einu leyti líktust kosningarnar mjög rússneskum kosningum síðustu ára. Alkhanov var sífellt í sjónvarpsfréttum meðan á kosningabaráttunni stóð en þar var varla eða ekki minnst á mótframbjóðendur hans. Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur notið svipaðrar meðferðar heima við.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×