Erlent

Flokksþing Repúblikana hafið

Sami grautur í annarri skál eða allt önnur Ella? Það er spurningin sem fréttaskýrendur og bandarískir kjósendur spyrja sig nú í upphafi flokksþings repúblíkana í New York. Fréttaskýrendur vestra segja repúblíkana eins og álfa út úr hól í þessari afar frjálslyndu borg - sem þó valdi sér repúblíkana sem borgarstjóra. Aðaldagskráin hefst raunar ekki fyrr en klukkan sex að staðartíma, þegar bandarísku fréttastöðvarnar hefja umfjöllun sína um þingið. Eitt meginþema fyrsta dagsins á að vera ellefti september 2001. Þó að Bush forseti ætli sér ekki að heimsækja staðinn þar sem tvíburaturnarnir stóðu þykir repúblíkönum í lagi að fjalla í þaula um atburðina og styrka stjórn Bush í kjölfarið. Schwarzenegger er meðal þeirra sem stíga á stokk í kvöld, ásamt John McCain og Rudy Guiliani, en allir teljast þeir hófsamir repúblíkanar. Sú ímynd sem sérfræðingar repúblíkana vilja skapa er einmitt af hófsömum flokki, en ekki íhaldsflokki þar sem kristnir hópar og hópar mótfallnir fóstureyðingum, hjónaböndum samkynhneigðra og tilraunum með fósturvísa eru áhrifamiklir. Stefna ríkisstjórnar Bush gefur þó hugmynd um ítökin. Rétt eins og demókratar fyrir rúmum mánuði vilja repúblíkanar vera sem næst miðjunni á ráðstefnu sinni í von um að ná til óákveðinna kjósenda sem flestir eru sagðir vera miðjumenn. Kjósendur bíða spenntir eftir því sem greina kann frambjóðendurna að. En kannski segir það sína sögu að þegar litið er yfir Madison Square Garden lítur sviðið út eins og sviðið hjá demókrötunum í Fleet Center í Boston, enda fengu báðir flokkar sama Hollywood-framleiðandann til að stýra uppákomunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×