Erlent

Breytingar á félagslega kerfinu

Umfangsmestu breytingar á félagslega kerfi Þýskalands standa fyrir dyrum. Hnattvæðing og aukin samkeppni knýja á um grundvallarbreytingar, sem almenningur virðist staðráðinn í að láta ekki yfir sig ganga.  Tillögur Harz-nefndarinnar svokölluðu hljóma eins og skrifræðismeistaraverk sem dugir til að svæfa áköfustu embættismenn á mettíma. En kjarninn snertir nánast alla Þjóðverja og það umhverfi sem þeir töldu sig eiga rétt á eftir erfið ár uppbyggingar að lokinni seinni heimsstyrjöldinni. Velferðarkerfi, menntun og 35 stunda vinnuvika eru hins vegar lúxus sem þýska ríkið virðist ekki lengur hafa efni á. Atvinnulausir, sem eru fjöldamargir í Þýskalandi, einkum í austurhlutanum, þurfa að ganga í gegnum nýtt kerfi sem á að hjálpa þeim að finna vinnu, hljóta þjálfun og lifa af um stund, en svo er hjálpinni lokið. Þetta eru án efa róttækustu aðgerðir sem Schröder kanslari hefur staðið fyrir. Helsti mótherji hans, fyrrverandi keppinautur innan Jafnaðarmannaflokksins og ráðherra í fyrstu stjórn Schröder, Oscar Lafontaine, gengur nú fram fyrir skjöldu til að mótmæla og skipuleggja aðgerðir. Tugir þúsunda þramma nú vikulega í mánudagsmótmælum um allt Þýskaland - einkum í Austur-Þýskalandi gamla. Þar eru mánudagsmótmæli þekkt fyrirbæri, og þau oft talin upphaf endaloka kommúnistastjórarinnar þar eystra fyrir hart nær fimmtán árum. Austanmegin gömlu landamæranna er atvinnuleysi enn mikið og ástandið á köflum afar slæmt - og landamærin eru enn til í höfðum margs borgarans sem sér alþýðulýðveldið í dýrðarljóma þar sem ríkið sá um alla. Schröder kanslari hefur ítrekað óskað eftir því að mótmælendur komi til viðræðna, enda séu umbætur óumflýjanlegar. Bæði er uppbygging Austur-Þýskalands ríkinu dýr, atvinnuleysistryggingakerfi og hlutar félagslega kerfisisins þykja bæði dýr og óskilvirk og loks þykir Þýskaland ekki lengur samkeppnisfært á tímum hnattvæðingar. Eins og víðar eru störf í vaxandi mæli flutt út þaðan til landa þar sem vinnuafl er ódýrara. Enn sem komið er hafa mótmælendur frekar viljað mótmæla en setjast að samningaborði, og með viðbót Lafontaines í dag ýja sumir stjórnmálaskýrendur að því, að hafin sé hrein og bein pólitísk barátta um völdin í landinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×