Erlent

Aldrei fleiri án sjúkratrygginga

Nær sjötti hver Bandaríkjamaður er ekki með neinar sjúkratryggingar. Alls eru 45 milljónir manna án sjúkratryggingar og hafa þeir aldrei verið fleiri. Á síðasta ári fjölgaði þeim um 1,4 milljónir. Það er 40 prósent meiri aukning en hjá þeim sem eru með sjúkratryggingar, en þeim fjölgaði um milljón. Sem hlutfall af heildarfjölda Bandaríkjamanna fjölgaði þeim sem ekki eru með sjúkratryggingar því úr 15,2 prósentum í 15,6 prósent. Fjöldi þeirra Bandaríkjamanna sem eru með tryggingar hefur heldur aldrei verið meiri en nú þrátt fyrir að hlutfallið af þjóðinni allri hafi lækkað lítillega. Í fyrra nutu 243,3 milljónir Bandaríkjamanna einhverra trygginga samkvæmt tölum bandarísku hagstofunnar. Flestir þeirra eru með starfstengdar tryggingar en um fjórðungur Bandaríkjamanna nýtur opinberra trygginga, svo sem Medicare, Medicaid og trygginga sem einstök ríki Bandaríkjanna veita börnum. Þeim sem njóta opinberra trygginga fjölgaði um 3,2 milljónir á síðasta ári. Þrátt fyrir að mikið sé um starfstengdar tryggingar í Bandaríkjunum eru fjarri því allir vinnandi menn tryggðir. Rúmlega 20 milljónir einstaklinga í fullri vinnu eru án nokkurra trygginga samkvæmt nýjum tölum bandarísku hagstofunnar. Þeim hefur fjölgað um 1,6 milljónir síðustu tvö ár. Texas og Nýja Mexíkó eru þau tvö ríki þar sem flestir eru án trygginga, meira en fimmti hver einstaklingur. Flestir eru tryggðir í Minnesota þar sem aðeins 8,2 prósent íbúanna eru án trygginga. Níunda hvert barn nýtur ekki trygginga. Hlutfallið er hæst meðal barna fátækra foreldra en eitt af hverjum fimm fátækum börnum nýtur ekki sjúkratrygginga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×