Erlent

Sóru embættiseið í nágrannaríki

Sómalskt bráðabirgðaþing er tekið til starfa, ekki í Sómalíu heldur í Naíróbí, höfuðborg nágrannaríkisins Kenía. Þar hafa leiðtogar helstu ættbálka Sómalíu unnið að því síðan í október 2002 að binda enda á borgarastríðið sem hefur valdið ringulreið í landinu frá því einræðisherrann Mohamed Siad Barre var hrakinn frá völdum árið 1991. "Við erum öll mjög hamingjusöm. Við finnum ilminn af þjóðareiningu," sagði Abdulkadir Farah Guelid, sem tekur sæti á þinginu fyrir hönd Puntland-héraðs í norðausturhluta Sómalíu. Viðstaddir athöfnina þegar þingmenn sóru embættiseið voru fulltrúar nágrannaríkja og sendimenn Sameinuðu þjóðanna sem hétu stuðningi við þessa tilraun til að koma á friði, lögum og reglu í Sómalíu eftir áralanga óöld. Síðustu þrettán ár hefur engin stjórn verið við völd í Sómalíu heldur hafa stríðandi fylkingar stríðsherra barist sín á milli og valdið ómældum hörmungum fyrir landsmenn. Myndun þingsins er fyrsta skrefið að því að koma saman starfhæfri ríkisstjórn í Sómalíu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×