Erlent

Mannrán vegna höfuðklæðnaðar

Tveir franskir blaðamenn eiga nú líf sitt undir því að frönsk stjórnvöld hætti við að banna frönskum skólastúlkum að hylja hár sitt. Blaðamennirnir sitja í haldi uppreisnarhóps í Írak sem hefur gefið ríkisstjórn Frakklands tveggja sólahringa frest til að verða við kröfum þeirra. Vika er síðan síðast spurðist til blaðamannanna tveggja sem starfa annars vegar á frönsku útvarpsstöðinni RFI og hins vegar á dagblaðinu Le Figaro. Í morgun sýndi arabíska sjónvarpsstöðin al-Jazeera hins vegar myndbandsupptöku af mönnunum sem virðast í haldi sama hóps og tók ítalskan blaðamann af lífi í síðustu viku. Annar þeirra segist þar vilja koma því á framfæri við fjölskyldu sína að það sé í lagi með hann  Forsætisráðherra, innanríkisráðherra og fleiri háttsettir menn í ríkisstjórn Frakklands hafa í dag setið á neyðarfundum til að leita leiða til að frelsa mennina. Leiðtogar múslima í Frakklandi hafa gengið til liðs við stjórnvöld. Fatiha Ajbli, hjá landsamtökum múslima þar í landi, segir það ekki koma til greina að samtökin sætti sig við að slæðumálið sé notað sem afsökun fyrir glæpsamlegri hegðun og hafna þeirri kúgun sem felist í gíslatöku.   Alls sitja þrjátíu og þrír útlendingar í haldi uppreisnarhópa í Írak þessa stundina og tólf hafa verið teknir af lífi vegna þess að ekki hefur verið orðið við kröfum mannræningjanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×