Erlent

Munch-ræningjar ófundnir

Ekki hefur enn tekist að upplýsa hverjir rændu málverkum eftir Edvard Munch en rannsóknardeild norsku lögreglunnar grunar að sömu menn hafi framið bankarán í Osló á síðasta ári sem enn er óupplýst. Á fréttavef Verdens gang kemur fram að ránin hafi verið skipulögð með svipuðum hætti og að ræningjarnir hafi beitt sömu aðferðum til að hreinsa eftir sig slóð og ummerki á flóttanum. Einn eða fleiri menn biðu í stolnum bíl fyrir utan ránsstaðinn í báðum tilfellum og áður en ræningjarnir skiptu um bifreið úðuðu þeir flóttabifreiðina að innan með slökkvitæki. Mennirnir voru vopnaðir sams konar byssum í báðum ránunum og í bæði skiptin voru undankomubílarnir skildir eftir í botnlangagötu. Lögreglunni hafa borist yfir 200 vísbendingar um ránið á frægustu verkum norska listamannsins Edvards Munch, Ópinu og Madonnu, en er óviss um hver var að verki. Ópið er til í fjórum eintökum en tíu ár eru liðin frá því annarri útgáfu af því var stolið úr Listagallareríi Noregs í Osló.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×