Innlent

Ragnhildur hæfust segir Árni

Árni Magnússon félagsmálaráðherra segist hafa talið Ragnhildi Arnljótsdóttur hæfasta umsækjandann um stöðu ráðuneytisstjóra í Félagsmálaráðuneytinu. Félagsmálaráðherra segir að Helga Jónsdóttir hafi beðið um rökstuðning fyrir því áliti að Ragnhildur Arnljótsdóttir hafi verið hæfust og hún muni fá hann. Að öðru leyti ætli hann ekki að tjá sig frekar um málið. Páll Pétursson, fyrrverandi félagsmálaráðherra, segist telja að allir umsækjendur hefðu verið vel að starfi sínu komnir. Þótti honum líklegt að það yrði Helga Jónsdóttir borgarritari eða Hermann Sæmundsson settur ráðuneytisstjóri sem fengi starfið.Páll sagðist hafa orðið mjög hissa þegar ákveðið var að framlengja umsóknarfrestinn tvisvar þótt tveir mjög hæfir umsækjendur hefðu sótt um en vildi ekki slá því föstu að málið tengdist innanhússátökum í Framsóknarflokknum. Hermann Sæmundsson, settur ráðuneytisstjóri, sem var talinn meðal þriggja hæfustu umsækjendanna segist sáttur við niðurstöðuna. Hann hafi fengið munnlegan rökstuðning og hann verði að duga. Það hafi verið mjög margir hæfir umsækjendur og ákvörðun hafi verið erfið. Hermann segist ætla að halda áfram í sínu fyrra starfi sem skrifstofustjóri. Hann segist ekki hafa skoðun á því hvort málið tengist átökum innan Framsóknarflokksins þar sem bæði hann og Helga hafa starfað í Framsóknarflokknum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×