Erlent

Sprengjur í báðum flugvélum

Ummerki um sprengiefni hafa fundist í flökum beggja rússnesku farþegaflugvélanna sem fórust nær samtímis á þriðjudagskvöld. Þar með þykir ljóst að hryðjuverkamenn hafi grandað báðum flugvélunum en rússnesk yfirvöld héldu lengi opnum þeim möguleika að eitthvað annað hefði eytt flugvélunum. Upplýst var í fyrradag að sprengiefnaleifar hefðu fundist í flugvélinni sem fórst í suðurhluta Rússlands og í gær var greint frá því að einnig hefðu fundist sprengiefnaleifar í flugvélinni sem fórst suður af Moskvu. Tsjetsjenskir aðskilnaðarsinnar hafa staðið fyrir fjölda sprengjuárása í Rússlandi síðustu ár. Fjölmargar tsjetsjenskar konur, sem misst hafa eiginmenn sína eða aðra nána ættingja, hafa gert sjálfsmorðsárásir. Rússneska lögreglan rannsakar nú bakgrunn tveggja kvenna sem voru um borð í sitt hvorri flugvélinni, en báðar eru þær með tsjetsjensk eftirnöfn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×