Erlent

Bandaríkin saka Ísrael um njósnir

Stjórnvöld í Ísrael hafa í dag þverneitað því að hafa stundað njósnir í varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna. Rannsókn er hafin á því hvort embættismaður í ráðuneyti Rumsfelds hafi stolið trúnaðarupplýsingum um Miðausturlönd og smyglað þeim áfram til Ísraels. Málið hefur þegar valdið miklu fjaðrafoki enda ekki á hverjum degi sem svo nánar vinaþjóðir saka hvor aðra um njósnir. Grunur leikur á að njósnarinn hafi starfað á skrifstofu Douglas Feiths sem er einn af nánustu ráðgjöfum Donalds Rumsfelds varnarmálaráðherra en Feith þessi var meðal helstu hugmyndafræðinga Bandaríkjastjórnar í innrásinni í Írak. Talið er að embættismaðurinn hafi bæði komið upp hlerunarbúnaði í varnarmálaráðuneytinu og stolið trúnaðarupplýsingum um Miðausturlönd, sérstaklega Íran. Þessum gögnum hafi síðan verið komið til Ísraels með aðstoð ísraelskra hagsmunasamtaka sem hafa höfuðstöðvar sínar í Washington. Með þessu móti hafi Ísraelsstjórn reynt að freista þess að hafa áhrif á stefnumótun Bandaríkjastjórnar í þessum heimshluta. Ef satt reynist getur þetta mál haft gríðarleg áhrif til hins verra á samskipti Bandaríkjanna og Ísraels og grafið undan stefnu Bandaríkjastjórnar í Miðausturlöndum. Enginn hefur enn verið handtekinn og sá sem grunaður er um njósnirnar hefur ekki verið nafngreindur. Stjórnvöld í Ísrael segja þessar ásakanir út í hött. Yuval Steinitz, sem er í utanríkismálanefnd ísraelska þingsins, segir Ísrael hafa ákveðið að njósna ekki um Bandaríkin og að hann sé viss um að þeirri ákvörðun hafi verið fylgt eftir. Hann segist samt ekki geta fullyrt neitt um málið að svo stöddu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×