Sport

Rooney vill fara til Manchester

Wayne Rooney, leikmaður Everton í ensku úrvalsdeildinni, hefur formlega farið fram á að vera skipt til Manchester United. United og Newcastle hafa bæði boðið í kappann en forráðamenn Everton vilja fá 30 milljónir punda fyrir kappann eða tæplega fjóra milljarða íslenskra króna. Forráðamenn Manchester hafa þegar boðið um 20 milljónir punda í leikmanninn öfluga. Sjálfur hefur Rooney meiri áhuga á að fara til Manchester en Newcastle og telur sig eiga betri möguleika hjá Alex Ferguson og félögum. Rooney segir ákvörðunina eina þá erfiðustu sem hann hafi tekið í lífinu en eftir góða frammistöðu á Evrópumótinu fyrr á þessu ári, hafi hann farið að hugsa sér til hreyfings. "Aðdáendur Everton hafa verið frábærir og ég von að þeir virði þessa ákvörðun mína" sagði Rooney. "Á EM uppgötvaði ég að ég er fær um að spila fótbolta á heimsmælikvarða. United leikur marga Evrópuleiki þannig að það lá beinast við að fara þangað". Alex Ferguson, knattspyrnustjóri United, sagði að það væri enga stund gert að segja já en önnur formsatriði tækju lengri tíma. "Hann verður vonandi orðinn United-leikmaður áður en lokað er fyrir leikmannaskipti" sagði Ferguson. Málið er sem fyrr ekki endanlega frágengið en lokað er fyrir leikmannaskipti á þriðjudaginn kemur og þá fáum við að vita hvar Rooney verður niðurkominn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×